Snuðra og Tuðra, Þórarinn Eldjárn og aðrar kanónur

Harpa Rún, Þórarinn, Ingólfur, Bergsveinn og Berlind María.
Dóróthea Ármann í Friðheimum hefur skráð gullfallegar jólaminningar ömmu sinnar og nöfnu og sett í bók. Jólatexti sem kemur jafnvel versta jólaskröggi í jólaskap.
Í Bókakaffinu, leikkonan Hera Fjölnisdóttir í hlutverki Snuðru litlu og Anna Björk Eyvindsdóttir afgreiðslukona. 

Það er stór vika framundan í Bókakaffinu. Austurvegi 22 á Selfossi þar sem stórkanónur úr bókmenntaheiminum mæta á fimmtudagskynningu og á sunnudag verða svo Snuðra og Tuðra á staðnum og skemmta ásamt Dórótheu Ármann barnabókarhöfundi. Í Bókakaffinu er gætt vel að sóttvörnum og aldrei mjög margir inni á staðnum í senn.

Snuðra og Tuðra mæta í Bókakaffið klukkan 14 sunnudaginn 12. des. og verða þar í jólaskapi, spila á píanóið og syngja jólalög. Þá mætir Dóróthea Ármann í Friðheimum sem sent hefur frá sér bókina Jólahátíð í Björk.

Fimmtudagskvöldið 9. des. mætir stórsveit rithöfunda og les upp en þeir sem vilja mæta eru vegna sóttvarna beðnir um að skrá sig til þátttöku á netfanginu bokakaffid@bokakaffid.is eða um síma 482 3079. Aðeins 25 gestasæti eru í húsinu og því ekki hætta á þrengslum en þeir sem eru seinir með skráningu gætu misst af því að fá.

Höfundarnir sem mæta að þessu sinni eru reynsluboltarnir Þórarinn Eldjárn og Bergsveinn Birgisson, ungskáldin Harpa Rún Kristjánsdóttir og Ingólfur Eiríksson og svo síðast en ekki síst  þær stöllur dr. Berglind María Tómasdóttir og hennar hliðarsjálf Rockriver Mary. Upplestur og uppákomur margskonar. Kakó, smákökur og jólastemning.

Höfundarnir kynna eftirtalin verk:

Tvísöngur á bók, geisladisk og segulbandsspólu – Berglind María Tómasdóttir.

Ingólfur Eiríksson – Stóra bókin um sjálfsvorkunn.

Harpa Rún Kristjánsdóttir – Kynslóð.

Bergsveinn Birgisson  – Kolbeinsey.

Þórarinn Eldjárn – Umfjöllun.