Grúskað í netbókahillum XXI – Yfirskygðir staðir

Árið 1970 birti Halldór Laxness grein sína „Hernaðurinn gegn landinu“ í Morgunblaðinu. Enn í dag er vísað til greinarinnar í eilífri baráttu gegn stóriðju og þarflausum virkjunum:

Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún. Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur? 

Halldór Laxness, „Hernaðurinn gegn landinu,“ bls. 127-8.

Greinin var svo aftur prentuð í bókinni Yfirskygðir staðir árið 1971 ásamt öðrum greinum eftir skáldið. Bókina má kaupa hér. Svo má hlusta á lestur Halldórs á greininni á vef RÚV.