Netbókahillan XXXI – Föstudagurinn langi

Bókakaffið er lokað í dag og starfsfólk okkar situr núna heima og hugleiðir þjáningar Krists. Netbókabúðin er hins vegar alltaf opin og öllum velkomið að versla hér í dag.

Á sínum tíma var hægt að ganga að því vísu að finna tvær bækur á heimilum landsmanna – Skólaljóðin og Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Það er langt síðan Skólaljóðin voru leyst af hólmi með nýrri kennslubókum um íslensk ljóð en Passíusálmarnir falla seint af sínum stalli (höfundur skrifar ekki af haldbærri þekkingu hér heldur er bara að giska, enda ekki nógu gamall til að muna þessa tíma sem hann gerir ráð fyrir hér).

Þessi útgáfa sem er á myndinni hér er dönsk þýðing eftir síra Þórð Tómasson sem var prestur í Danmörku, fyrst í Horsens en svo í Venetofte. Prestsetrið á síðari staðnum var eingöngu ætlað prestum sem voru skáld, líkt og segir í umfjöllun Morgunblaðsins um þessa þýðingu, og var allmikill tími ætlaður prestunum til ritstarfa.

Í sömu frétt segir enn fremur:

Það mun flestra dómur er þýðingar þessar lesa að þær sjeu mjög vel af hendi leystar. Eitt af því, sem vekur mikla athygli á þýðingunni er að síra Þórður heldur stuðlum og höfuðstöðum, svo sem í íslensku máli væri. Útgáfa bókarinnar er einkarsnotur. Framan við sálmana er æfi saga síra Hallgríms Pjeturssonar með mynd af honum.

Morgunblaðið, 26. júní 1930.

Hér er tilvalin gjöf fyrir góða danska vini á spottprís!