Fyrsti fyrirlestur kvenmanns á Íslandi

Einstakt rit eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur
Þeir sem þekkja Bókakaffið vita að hér má finna ótrúlegustu gersemar. Ein þeirra er stórmerkilegt rit sem inniheldur fyrsta opinbera fyrirlestur konu á Íslandi eftir femínista Íslands, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Um er að ræða 40 blaðsíðna rit með fyrirlestrinum í heild sinni. Ísafoldarprentsmiðja prentaði hann árið 1888 og var kostnaðarmaður Sigurður Kristjánsson. Ritið fjallar um hagi og réttindi kvenna og það ótrúlega heilt miðað við aldur. Ritið er ekki komið í almenna sölu en hægt er að bjóða í það með því að senda tölvupóst á bokakaffid@bokakaffid.is

Grúskað í netbókahillum VIII

Moli fékk nafnið út af ást sinni á sykurmolum

Um daginn birtum við umfjöllun um Sigmund, skopmyndateiknara morgunblaðsins. Það er því við hæfi að við birtum núna bók frá skopmyndateiknara Þjóðviljans, svona svo allrar sanngirni sé gætt. Moli litli flugustrákur segir af flugunni Mola sem er svo óskaplega hrifinn af sykurmolum. Þess vegna heitir hann nú Moli. Í umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur á Bókmenntaborginni má fræðast frekar um Mola litla og skapara hans, Ragnar Lár, en þar segir meðal annars:

En fyrir utan að hafa verið þekktur skopteiknari, meðal annars hjá Speglinum, þá er Ragnar Lár einn af brautryðjendum íslenskra myndasagna. Ennfremur mun hann hafa verið brautryðjandi fyrir hreyfimyndir. Mikið væri nú gaman ef eitthvað af því efni öllu væri safnað saman til endurútgáfu, því hér eru á ferðinni merkar menningarminjar sem hafa að mestu fallið í gleymskunnar dá.

Úlfhildur Dagsdóttir, Moli litli flugustrákur

Fyrir safna teiknimynda þá er þetta skyldueign og ekki er það dýrt, bara 1100 krónur. Það er nú minna en margur annar óþarfi. Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum VII

Afskaplega skemmtileg bókakápa hér ferð

Eruð þið í vandræðum með að ákveða matseðlinn fyrir öll jólaboðin framundan? Þá er um að gera að ráðfæra sig við guðmóður íslenskrar matargerðar, Helgu Sig. Ég geri ráð fyrir því að hér sé hægt að finna uppskriftir að sígildum ostaréttum eins og ostapinnar. Eða jafnvel ostarúllur? Kannski bráðinn ostur eða þá ostur á brauð? Það eina sem skiptir máli er að bókin er á gjafvirði, 2460 krónur. Það er nú bara aðeins dýrara en eitt oststykki frá Mjólkurbúinu.

Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum VI

Skopamyndateiknarinn Sigmund er þjóðargersemi sem skemmti þjóðinni með teikningum sínum í Morgunblaðinu í44 ár. Sumar teikningarnar fóru fyrir brjóstið á lesendum og þá sérstaklega teikningin sem hann gerði af þýska rannsóknarlögreglumanninum Karl Schütz þegar hann kom hingað til að hjálpa til við rannsóknina á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Fyrir þá mynd var hann kærður en hann slapp þó fyrir horn því að hann hafði ekki merkt myndina nema með fyrsta nafni.

Þessi bók hérna gæti vel endað undir jólatrénu hjá einhverjum gömlum Moggaunnanda en bókina má kaupa hér. Vilji fólk fræðast meira um Sigmund (og vita hvort hann hét eitthvað meira en bara Sigmund) má benda á vefsíðuna www.sigmund.is.

Grúskað í netbókahillum V

Klæddur í purpura

Ljóðabókin Rubaiyat Omars Khayyams er þýðing enska skáldsins Edwards Fitzgeralds á persneskum kveðskap sem hann eignar Omar Khayyam, persneskum fjölfræðingi og skáldi. Þetta eintak er mikil gersemi en bókin er ekki bara fallegur gripur heldur er þetta íslensk þýðing Jochums M. Eggertssonar, sem var betur þekktur sem Skuggi. Skuggi var einn af merkilegri þýðendum 20. aldar en hann var líka rithöfundur og skrifaði meðal annars söguna Gaddavírsátið sem Sæmundur gaf út aftur nú á þessu ári. Bókina prýðir 75 fallegar heilsíðumyndir eftir myndlistarmanninn Gordon Ross en vilji fólk fræðast betur um þann merka listamann er hægt að lesa pistil um teikningarnar hér. Þetta fallega eintak má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum IV

Ekki um Hellu.

Ótrúlegt en satt þá fjallar þessi bók ekki um eilífar deilur Hvolsvellinga og Hellubúa heldur er þetta færeysk ljóðabók eftir færeyska ljóðskáldið Christian Matras. Kápumyndin er svo eftir annað skáld sem Íslendingar þekkja sjálfsagt mun betur en það er William Heinesen. Heinesen var nefnilega ansi lunkinn teiknari og gerði margar káputeikningar fyrir færeyskar bækur á sínum tíma.

Fyrir Íslendinga þá er það einstakt að fara til Færeyja. Ég ætti að vita það, ég hef farið þrisvar sinnum og stefni að því að fara minnst þrisvar sinnum í viðbót! Bókina má kaupa hér.

Jólabókaupplestur í Bókakaffinu:

Setjum kvóta á gestafjölda vegna Covid

Bókakaffið á Selfossi verður með jólabókaupplestur öll fimmtudagskvöld til jóla en vegna aðstæðna er takmarkaður sætafjöldi. Þeir sem vilja mæta verða því að skrá sig fyrirfram og ekki verða leyfðir fleiri en 25 almennir gestir. Þar við bætast höfundar og starfsfólk. Við hvetjum áhugasama til að skrá sig með því að senda okkur tölvupóst á bokakaffid@bokakaffid.is. Gefa þarf upp kennitölu og síma. Þeir fyrstu 25 sem skrá sig fá aðgang en öllum póstum er svarað. Á fyrsta upplestrarkvöldinu verða eftirfarandi höfundar; Inga Kristjánsdóttir frá Gýgjarhóli sem les úr bók sinni Bréfin hennar Viktoríu, Þórunn Rakel Gylfadóttir sem les úr skáldsögunni Akam, ég og Annika, Sölvi Sveinsson með smásagnasafnið Lög unga fólksins og Gróa Finnsdóttir með skáldsöguna Hylurinn. Notaleg jólastemmning með kakóbolla, smákökum og skrafi við skemmtilegt fólk. Munið eftir grímunum.

Grúskað í netbókahillum III

Héraðssambandið Skarphéðinn hefur löngum mátt fagna góðu gengi í íþróttum en það er samband allra íþrótta- og ungmennafélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum. Það er nú nokkuð líklegt að sumum þætti gaman að eiga þessa afrekaskrá HSK enda líklegt að enn séu einhverjir á lífi sem eru nefndir þar á nafn eða mögulega einhverjir sem þekkja nöfn þarna. Svo væri gaman að fletta upp á ömmum og öfum og afrekum þeirra og reyna að slá þeim við! Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum II

Kamala Markandaya var einn frægasti höfundur Indlands á 20. öldinni. Þýddur skáldskapur hefur alltaf átt erfitt uppdráttar á Íslandi og íslenskir lesendur vilja helst lesa, jú, bækur eftir íslenska höfunda. Þrátt fyrir það þá voru tvær bækur eftir Kamölu þýddar á íslensku, Á ódáinsakri af Einari Braga og svo Innri eldur af Ragnheiði Árnadóttur. Bókina má kaupa með því að ýta hér.

Dagur íslenskrar tungu!

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996, þann 16.nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Dagurinn er helgaður rækt við tungumálið og markmið hans að beina athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, íhuga hvert gildi hennar er fyrir þjóðarvitund okkar og menningu. Fyrir þá sem vilja taka virkan þátt í því að halda daginn hátíðlegan má mæla með því að næla sér í bókina „Íslenskar rjettritunarreglur“ eftir Halldór Kr. Friðriksson sem kom út árið 1859. Við eigum einmitt þessa dýrmætu bók fyrir alla réttritunarsinna.