Netbókahillan XXXIV – Maí nálgast

Maí nálgast óðfluga og því kannski við hæfi að sjá hvað er að finna um þennan eins atkvæðis mánuð í netbókabúðinni.

Bókin Frostnótt í maí eftir Þórunni Elfu kom út árið 1958 og segir frá ungri stelpu sem er send frá móður sinni í Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Sagan er eins og Þórunn lýsir henni sjálf „sálfræðileg skáldsaga“.

Bókin hlaut ekki góða dóma í Þjóðviljanum þetta sama ár, nokkuð sem Þórunn var óánægð með og skrifaði bréf í blaðið þar sem hún úthúðar ritdómaranum B.B. og sakar hann um léleg vinnubrögð og að hafa ekki lesið bókina almennilega:

… B.B. hefur lesið sögu mína ótilhlýðilega illa, því fer hann rangt með, gerir vinnubrögð mín tortryggileg og fellir þannig skugga á rithöfundarheiður minn. Er þetta ráðvendni? B.B. hefur með hörðum orðum mótmælt óráðvendni ritdómara. „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.“ Ég mótmæli með rökum, en bæti ekki skammarorðum við, vegna þess að ég er enginn strigakjaftur.

Þórunn Elfa Magnúsdóttir, „Frostnótt í maí – Hvernig lesa ritdómarar bækur?“, Þjóðviljinn 17. desember 1958.

B.B. svarar sjálfur bréfi Þórunnar í sama tölublaði. Afsöknarbeiðnin er nokkuð óeinlæg. B.B. viðurkennir að hafa ekki lesið Frostnótt í maí nema einu sinni, fyrir utan upphafið „af því að ég gerði tvær atrennur að sögunni“. Hann lýkur afsökunarbeiðninni á þessum orðum:

Ritdómendum ber sem sé að ástunda andleg meinlæti, þegar svo ber undir, og lesa hverja bók af brennandi áhuga – hvort sem hún er 80 blaðsíðna snilldarverk eða 280 blaðsíðna raus, svo einhverjar tölur séu nefndar [innsk. höf.: bók Þórunnar er einmitt 280 síður…]. Þessvegna biðst ég afsökunar af óvenjulega heilum huga.

B.B. „Agnarlítil viðbót“, Þjóðviljinn 17. desember 1958.

Ef það eru einhverjir þarna úti sem vilja kynna sér þessar ritdeilur betur þá verður það fólk samt sem áður að lesa bókina fyrst. Hún er einmitt til sölu hjá okkur!