Bókaútgáfan Sæmundur undirbýr útgáfu á sjálfsævisögu Páls Skúlasonar frá Bræðratungu (1940-2020).
Þeir sem vilja heiðra minningu Páls og fá eintak af bók hans í forsölu geta skráð sig hér á síðunni, https://form.123formbuilder.com/6110060/. Bókin kostar í forsölu 5000 krónur sem greiðast við afhendingu. Áætlaður útgáfutími er í september 2022. Frestur til skráningar í Tabúlu er til 1. júlí 2022.
Páll sem var menntaður lögfræðingur kom af margvíslegum menningarmálum og er þekktastur fyrir útgáfustörf sín og ritstjórn. Tímaritin Bókaormurinn og Skjöldur voru gefin út sem persónuleg málgögn Páls Skúlasonar og nutu athygli og virðingar.
Við lát Páls fannst óvænt í munum hans handskrifuð ævisaga þar sem hann segir frá uppvexti, námsárum og störfum á hinum ýmsu sviðum. Bókaútgáfan Sæmundur hefur nú í samráði við erfingja Páls tekið ákvörðun um útgáfu þessa verks.
Menningarstarf Páls náði jafnt til þess að leggja rækt við hinar æðri listir og stunda öldurhús borgarinnar. Hann var því af mörgum auknefndur Júnkerinn af Bræðratungu með tilvísun til þekktrar persónu í Íslandsklukku Halldórs Laxness.
Páll er hispurslaus í frásögnum af vínhneigð sinni án þess að nokkru sinni örli þar á eftirsjá eða harm yfir eigin örlögum.
En jafnframt því að segja frá sjálfum sér birtir Júngkerinn palladóma um menn og málefni og frásagnir af ýmsum skemmtunum og ferðalögum.
Páll var kvæntur Elísabetu Guttormsdóttur frá Hallormsstað (1943-2017). Hjónaband þeirra var barnlaust. Bræður Páls voru þeir Sveinn Skúlason bóndi í Bræðratungu (1927-2007) og Gunnlaugur Skúlason dýralæknir í Laugarási (1933-2017).