Eitt verð fyrir alla landsmenn

Pósturinn sendi nýlega út tilkynningu um hækkanir og breytingar á póstburðargjaldi sínu. Nú gildir ekki það sama fyrir Jón og séra Jón, dýrara verður fyrir fólk á landsbyggðinni að fá til sín pakka sendan með póstinum. Þar með er afnuminn sá jöfnuður sem verið hefur í póstsendingum landsmanna. Til að sporna við þessum ójöfnuði höfum við hjá Bókakaffinu ákveðið að jafna gjaldið og verður fast gjald fyrir alla innanlandspakka upp að tveimur kílóum kr. 1390. Auk þess bendum við á að nú er sá valmöguleiki fyrir hendi að sækja pantanir frítt í verslanir okkar á Selfossi eða í Reykjavík.

Bókakaffið á Selfossi 15 ára!

BÓKAKAFFIÐ Á SELFOSSI ER 15 ÁRA! Í tilefni þess verður afmælisveisla laugardaginn 9. október. Við bjóðum upp á 30% afslátt af öllum Sæmundarbókum, notuðum bókum og völdum titlum af barna- og fullorðinsbókum. Leiklestur og fjör fyrir börnin verður frá kl. 14-15 í umsjón Heru Fjord, leikkonu á Eyrarbakka. Kaffi og kruðerí í boði hússins – Allir velkomnir og við hlökkum til að sjá ykkur. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Opið frá 12-18. Bókakaffið, Austurvegi 22, 800 Selfoss

Satanískt útgáfupartí í Bókakaffinu

Það verður „satanískt“ útgáfupartí í Bókakaffinu í Ármúla 42 í Reykjavík næstkomandi föstudag, 1. október kl. 17. Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir les úr nýútkominni ljóðabók Satanía hin fagra. Árni Óskarsson kynnir nýútkomna þýðingu á sakamálasögunni Örvænting eftir Vladimir Nabokov. Árni Matthíasson kynnir nýútkomið smásagnasafn frænda síns Skugga, Gaddavírsátið og aðrar sögur. Skáldið Jochum Eggertsson les en sá upplestur er leikinn af gömlum stálþráðarupptökum Ríkisútvarpsins. Veitingar við allra hæfi, dans og almenn gleði.

Lítil stemning fyrir hauskúpum og aftökum

Skemmtilegt viðtal við Auði Aðalsteinsdóttur er að finna á ruv.is. Þröstur Helgason ræddi við hana um nýútkomið rit hennar, Þvílíkar ófreskjar. Viðtalið var í þættinum Svona er þetta á Rás 1 og geta áhugasamir hlustað á þessari slóð. -> https://www.ruv.is/frett/2021/09/23/litil-stemning-fyrir-hauskupum-og-aftokum

Listasýning Evu Bjarnadóttur

Nokkur verka Evu Bjarnadóttur eru til sýnis í Bókakaffinu í Ármúla. Eva Bjarnadóttir nam myndlist í Hollandi en býr núna á Fagurhólsmýri í Öræfum. Þar er hún með vinnustofu í gamla sláturhúsinu og vinnur hún mikið með efni tengdu því en sækir sér jafnfram efni í náttúruna í kring og hefur lúpínan, sem vex þar allt um kring, verið henni uppspretta margra verka. Hér eru nokkrar myndir af verkunum, en sjón er sögu ríkari og eru allir hvattir til að kíkja á sófahornið í Ármúlanum.Elín Gunnlaugsdóttir tók myndir á sýningunni.