Ný bók – Júngkærinn af Bræðratungu

Páll Skúlason, lögfræðingur

Bókaútgáfan Sæmundur undirbýr útgáfu á sjálfsævisögu Páls Skúlasonar frá Bræðratungu (1940-2020).

Þeir sem vilja heiðra minningu Páls og fá eintak af bók hans í forsölu geta skráð sig hér á síðunni, https://form.123formbuilder.com/6110060/. Bókin kostar í forsölu 5000 krónur sem greiðast við afhendingu. Áætlaður útgáfutími er í september 2022. Frestur til skráningar í Tabúlu er til 1. júlí 2022. 

Páll sem var menntaður lögfræðingur kom af margvíslegum menningarmálum og er þekktastur fyrir útgáfustörf sín og ritstjórn. Tímaritin Bókaormurinn og Skjöldur voru gefin út sem persónuleg málgögn Páls Skúlasonar og nutu athygli og virðingar.

Við lát Páls fannst óvænt í munum hans handskrifuð ævisaga þar sem hann segir frá uppvexti, námsárum og störfum á hinum ýmsu sviðum. Bókaútgáfan Sæmundur hefur nú í samráði við erfingja Páls tekið ákvörðun um útgáfu þessa verks.

Menningarstarf Páls náði jafnt til þess að leggja rækt við hinar æðri listir og stunda öldurhús borgarinnar. Hann var því af mörgum auknefndur Júnkerinn af Bræðratungu með tilvísun til þekktrar persónu í Íslandsklukku Halldórs Laxness.

Páll er hispurslaus í frásögnum af vínhneigð sinni án þess að nokkru sinni örli þar á eftirsjá eða harm yfir eigin örlögum.

En jafnframt því að segja frá sjálfum sér birtir Júngkerinn palladóma um menn og málefni og frásagnir af ýmsum skemmtunum og ferðalögum.

Páll var kvæntur Elísabetu Guttormsdóttur frá Hallormsstað (1943-2017). Hjónaband þeirra var barnlaust. Bræður Páls voru þeir Sveinn Skúlason bóndi í Bræðratungu (1927-2007) og Gunnlaugur Skúlason dýralæknir í Laugarási (1933-2017). 

Páll og Elísabet

Netbókahillan XXXV – Uppi á öræfum

Jóhannes Friðlaugsson fæddist 1882 á Hafralæk í Aðaldal, sonur Friðlaugs Jónssonar og Sigurlaugar Jósefsdóttur.

Þrátt fyrir að vera heilsuveill frá unga aldri tókst honum að brjótast til mennta og lauk kennaraprófi frá Flensborg árið 1904. Hann stundaði kennslu vítt og breitt um landið og síðast á heimaslóðum sínum í Aðaldal.

Jóhannes skrifaði mikið af bókum, ljóðum og sögum sem birtust í mörgum íslenskum tímaritum. Ein af þeim bókum var Uppi á öræfum: dýrasögur og frásagnir sem er einmitt til sölu hjá okkur hér í netbókabúðinni.

Á óðfræðivefnum Braga má finna nokkrar vísur eftir Jóhannes en við látum eina fylgja með hér, vísu sem hann orti til stúlku:

„Allt er sviðið, engin blóm
eru á þínum vegi.
Öll þín sál er auð og tóm,
engin skíma af degi.“

Þú varst nú meiri durgurinn Jóhannes…

Netbókahillan XXXIV – Maí nálgast

Maí nálgast óðfluga og því kannski við hæfi að sjá hvað er að finna um þennan eins atkvæðis mánuð í netbókabúðinni.

Bókin Frostnótt í maí eftir Þórunni Elfu kom út árið 1958 og segir frá ungri stelpu sem er send frá móður sinni í Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Sagan er eins og Þórunn lýsir henni sjálf „sálfræðileg skáldsaga“.

Bókin hlaut ekki góða dóma í Þjóðviljanum þetta sama ár, nokkuð sem Þórunn var óánægð með og skrifaði bréf í blaðið þar sem hún úthúðar ritdómaranum B.B. og sakar hann um léleg vinnubrögð og að hafa ekki lesið bókina almennilega:

… B.B. hefur lesið sögu mína ótilhlýðilega illa, því fer hann rangt með, gerir vinnubrögð mín tortryggileg og fellir þannig skugga á rithöfundarheiður minn. Er þetta ráðvendni? B.B. hefur með hörðum orðum mótmælt óráðvendni ritdómara. „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.“ Ég mótmæli með rökum, en bæti ekki skammarorðum við, vegna þess að ég er enginn strigakjaftur.

Þórunn Elfa Magnúsdóttir, „Frostnótt í maí – Hvernig lesa ritdómarar bækur?“, Þjóðviljinn 17. desember 1958.

B.B. svarar sjálfur bréfi Þórunnar í sama tölublaði. Afsöknarbeiðnin er nokkuð óeinlæg. B.B. viðurkennir að hafa ekki lesið Frostnótt í maí nema einu sinni, fyrir utan upphafið „af því að ég gerði tvær atrennur að sögunni“. Hann lýkur afsökunarbeiðninni á þessum orðum:

Ritdómendum ber sem sé að ástunda andleg meinlæti, þegar svo ber undir, og lesa hverja bók af brennandi áhuga – hvort sem hún er 80 blaðsíðna snilldarverk eða 280 blaðsíðna raus, svo einhverjar tölur séu nefndar [innsk. höf.: bók Þórunnar er einmitt 280 síður…]. Þessvegna biðst ég afsökunar af óvenjulega heilum huga.

B.B. „Agnarlítil viðbót“, Þjóðviljinn 17. desember 1958.

Ef það eru einhverjir þarna úti sem vilja kynna sér þessar ritdeilur betur þá verður það fólk samt sem áður að lesa bókina fyrst. Hún er einmitt til sölu hjá okkur!

Netbókahillan XXXIII – Smásögur stúdenta

Veturinn 1991-92 efni Stúdentaráð Háskóla Íslands til smásagnasamkeppni. 59 sendu inn sögu en aðeins 11 hlutu náð fyrir augum dómnefndar sem voru birtar í þessu sérhefti Stúdentablaðsins árið 1992.

Það vekur skemmtilega athygli að ein af sögunum, Frelsi Daniels Santos, er eftir engan annan en Jón Özur Snorrason, íslenskukennara við Fjölbrautaskóla Suðurlands og einn af fastakúnnum Bókakaffisins. Hann er kannski viljugur að árita bókina ef kaupandi nær tali af honum. Hún fæst allavega hér fyrir lítið verð.

Netbókahillan XXXII – Hvaðan koma allar þessar bækur?

Það væri verðugt rannsóknarefni að skoða hvernig hinar ólíklegustu bækur komast í okkar hendur. En við í Bókakaffinu vitum svosem að bækur eiga það til að hafa sjálfstæðan vilja og birtast bara þegar þeim hentar.

Þessi bók, Puppetry of China, er sýningarskrá frá sýningu sem var haldin árið 1984 um kínverskar brúður sem einhver Íslendingur hefur mögulega sótt og tekið sýningarskrá með sér heim. Bókin er allavega til hjá okkur og vel þess virði að glugga í og kostar litlar þúsund krónur.

Netbókahillan XXXI – Föstudagurinn langi

Bókakaffið er lokað í dag og starfsfólk okkar situr núna heima og hugleiðir þjáningar Krists. Netbókabúðin er hins vegar alltaf opin og öllum velkomið að versla hér í dag.

Á sínum tíma var hægt að ganga að því vísu að finna tvær bækur á heimilum landsmanna – Skólaljóðin og Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Það er langt síðan Skólaljóðin voru leyst af hólmi með nýrri kennslubókum um íslensk ljóð en Passíusálmarnir falla seint af sínum stalli (höfundur skrifar ekki af haldbærri þekkingu hér heldur er bara að giska, enda ekki nógu gamall til að muna þessa tíma sem hann gerir ráð fyrir hér).

Þessi útgáfa sem er á myndinni hér er dönsk þýðing eftir síra Þórð Tómasson sem var prestur í Danmörku, fyrst í Horsens en svo í Venetofte. Prestsetrið á síðari staðnum var eingöngu ætlað prestum sem voru skáld, líkt og segir í umfjöllun Morgunblaðsins um þessa þýðingu, og var allmikill tími ætlaður prestunum til ritstarfa.

Í sömu frétt segir enn fremur:

Það mun flestra dómur er þýðingar þessar lesa að þær sjeu mjög vel af hendi leystar. Eitt af því, sem vekur mikla athygli á þýðingunni er að síra Þórður heldur stuðlum og höfuðstöðum, svo sem í íslensku máli væri. Útgáfa bókarinnar er einkarsnotur. Framan við sálmana er æfi saga síra Hallgríms Pjeturssonar með mynd af honum.

Morgunblaðið, 26. júní 1930.

Hér er tilvalin gjöf fyrir góða danska vini á spottprís!

Netbókahillan XXX – Hinumegin götunnar

Hrefna Sigurðardóttir fæddist árið 1920 á Þingeyri við Dýrafjörð. Árið 1945 giftist hún Kjartani Ingimundarsyni, skipstjóra, og eignaðist með honum fjögur börn.

Árið 1985 gef Hrefna út sína fyrstu bók, Hinumegin götunnar. Ljóðin eru flest í hefðbundnu formi samanber eitt þeirra sem birtist í Þjóðviljanum en það orti hún eftir aðgerð á spítala:

Passasami Pétur minn,
pyntingin er liðin,
en heldurðu ekki að hanskinn þinn
sé hinumegin við kviðinn.

Það er ekki bara innihaldið sem er gott heldur er bókin líka afskaplega falleg að sjá en hana má kaupa hér fyrir spottprís.

Netbókahillan XXIX – Róbinson Krúsó

Í apríl árið 1719 kom bókin Róbinsón Krúsó út. Í fyrstu var þetta talið vera raunveruleg sjálfsævisaga Krúsós en seinna kom í ljós að sagan var ekki sönn heldur skrifuð af enska rithöfundinum Daníel Defoe. Sú uppljóstrun varð þó ekki til þess að minnka vinsældir bókarinnar. Því hefur verið haldið fram að engin önnur bók hafi verið þýdd yfir á jafn mörg tungumál eins og Róbinson Krúsó, nema þá bara Biblían.

Þessi útgáfa er frá 1975 og er endursögn Jane Carruth á upprunalegu sögunni sem Andrés Kristjánsson þýddi svo. Í fræðunum eru endursagnir taldar með þýðingum þannig að þetta má í raun telja sem tvöfalda þýðingu á verkinu. Bókin er fáanleg í netbókabúðinni á aðeins 1.990 krónur. Gjöf en ekki gjald.

Netbókahillan XXVIII – Fæst Fást hér?

Árið 1970 setur Þjóðleikhúsið upp Fást eftir Goethe í fyrsta sinn. Í leikdómi sínum um sýninguna, sem er ekki alslæmur, skrifar Sigurður A. Magnússon eftirfarandi um þýðinguna:

Goethe er eitt mesta ljóðskáld á þýzka tungu og því ekkert áhlaupaverk að snúa upphöfnu, lýrísku og þó einföldu og áþreifanlegu [innsk. höf.: Jeremías Sigurður…] ljóðmáli hans á aðrar tungur. Það er varla á færi annarra en stórskálda. Þýðing Yngva Jóhannessonar nær hvergi göfgi frumtextans eða upphöfnum einfaldleik, en hún er samt einkar skýr og greinar góð og kom furðuvel til skila af vörum leikenda, einkanlega seinni hlutinn, og er sem þýðandanum vaxi ásmegin eftir því sem á verkið líður.

Sigurður A. Magnússon, „Fást,“ Alþýðublaðið 30.12.1970.

Þessi þýðing var svo gefin út af Menningarsjóði árið 1972 og nú er hún fáanleg hér hjá okkur í Bókakaffinu. Sjálfsagt þó nokkrir Goethe-aðdáendur sem myndu sjálfsagt vilja eignast þessa þýðingu…

Yngvi Jóhannesson dó árið 1984, 87 ára gamall. Hann lauk verslunarprófi árið 1919 og vann hjá Nathan&Olsen til ársins 1929 þegar hann hóf störf fyrir Mjólkurfélag Reykjavíkur. Meðfram verslunarstörfum þýddi hann ekki aðeins Fást, heldur einnig Úr djúpinu eftir Oscar Wilde og Bókina um veginn eftir Lao Tse-Tung, svo eitthvað sé nefnt. Greinilega mikilsvirður maður …

Netbókahillan XXVII – Í Unuhúsi

Endurútgáfa frá 1990

Árið er 1922. Stalín verður aðalritari sovéska kommúnistaflokksins og Mussolini fer til Rómar og tekur völdin. Öllu merkilegri hlutir gerast heima fyrir en Ingibjörg H. Bjarnason nær kjöri á þing, fyrst kvenna á Íslandi og Þórbergur Þórðarson hittir Stefán frá Hvítadal á heimili þess síðarnefnda á Bessatungu í Dölum til ræða um dvöl Stefáns í Unuhúsi, athvarfi skálda og bóhema á upphafi 20. aldarinnar.

Úr þessum samræðum verður til bókin Í Unuhúsi en hún kemur ekki út fyrr en 40 árum síðar. Þórbergur hafði sjálfur lengi viljað skrifa sína eigin frásögn af lífinu í Unuhúsi en lét nægja að færa í letur frásögn vinar síns, Stefáns frá Hvítadal, frá kvöldum þeirra saman á Bessatungu.

Þessa útgáfu bókarinnar má kaupa hér en hún er svo lítil og nett að hún kemst fyrir í jafnvel minnstu vösum.