Netbókahillan XXVI – Lækningar séra Þorkels

Inflúensan herjar nú á landann, skæðari en áður. Sjálfsagt mala lyfsalar gull núna á sölu á Strepsils, Panodil hot og öðru.

Það eru þó ekki bara apótekin sem selja lækningar og meðöl. Í netbókabúðinni kennir ýmissa læknagrasa, til dæmis bókin Lækningar eftir séra Þorkel Arngrímsson. Ekki ætlað til inntöku. Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum XXV – Bílavandræði

Ég lenti í því núna um daginn að bíllinn minn bilaði. Mig hefur alltaf langað að geta lagað bíla sjálfur og kunna skil á hugtökum eins og balansstöng, stýrisendar, spíssar, spliff, hjól og dekk.

Ég hef ekki ennþá haft tíma til að verða bílakarl en fyrir þau ykkar sem langar mikið að laga bílana ykkar sjálf og hafið tíma til þess þá ættuð þið kannski að kíkja í þessa bók.

Hún kostar minna en tíminn hjá bifvélavirkja og hægt að kaupa hana hér.

Grúskað í netbókahillum XXIV – Tillögur um skattamál Íslands

Ert þú nokkuð að gleyma skattframtalinu? Ef svo er þá ættirðu ekki að vera að eyða tíma þínum í ráp á netinu. En ef þú ert í góðum málum þá ættirðu kannski að fjárfesta í þessari bók og kynna þér helstu tillögur um skattamál Íslands frá árinu 1907.

Bókina má kaupa hér. Hún er svo örugglega skattfrádráttarbær…

Grúskað í netbókahillum – XXIII: Nornaveiðar

Þær fréttir bárust í gær að Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, hefði beðist afsökunar fyrir nornaveiðar og ofsóknir í Skotlandi frá 16. til 18. aldar.

Í Skotlandi voru aftökur vegna galdra taldar fimm sinnum fleiri en annars staðar í Evrópu. Það má lesa frekar um þetta mál hér en það voru samtökin Nornir Skotlands sem höfðu barist fyrir þessari afsökunarbeiðni um langa hríð.

Bókin Witch Hunt eftir Wendy Corsi Staub gerist reyndar ekki í Skotlandi heldur í Bandaríkjunum. Þar fer unga stúlkan Abbey aftur í tímann til að bjarga jafnöldru sinni frá því að vera hengd fyrir galdur.

Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum XXII – Afmælisbarn dagsins

Þann 8. mars árið 1827 fæddist Páll Ólafsson á Dvergasteini á Seyðisfirði og því fagnar Páll 195 ára afmæli í dag. Það er því algjörlega við hæfi að birta eina af bókunum hans sem eru til sölu í Netbókabúðinni okkar, ljóðasafnið Ljóð frá 1955.

Núna styttist í vorið og því eðlilegt að birta brot úr ljóði Páls, Vorvísur I:

Nú get ég ei sem fuglinn fagur
flutt þér kvæði sem verðugt er
en þegar minn endar ævidagur
eilífa lofgjörð skal ég þér
lifandi manna landi á,
ljósanna faðir, syngja þá.

Bókina má kaupa hér á gjafvirði.

Grúskað í netbókahillum XXI – Yfirskygðir staðir

Árið 1970 birti Halldór Laxness grein sína „Hernaðurinn gegn landinu“ í Morgunblaðinu. Enn í dag er vísað til greinarinnar í eilífri baráttu gegn stóriðju og þarflausum virkjunum:

Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún. Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur? 

Halldór Laxness, „Hernaðurinn gegn landinu,“ bls. 127-8.

Greinin var svo aftur prentuð í bókinni Yfirskygðir staðir árið 1971 ásamt öðrum greinum eftir skáldið. Bókina má kaupa hér. Svo má hlusta á lestur Halldórs á greininni á vef RÚV.

Grúskað í netbókahillum XX – Rispa jeppa

Árið 2006 gerði jaðarbókaútgáfan Nýhil samning við Landsbankann þess efnis að bankinn myndi kaupa 130 áskriftir að bókaröð forlagsins Norrænar bókmenntir. Bókunum var, að því er ég best veit, dreift um land allt. Hér má lesa grein um málið og sjá Björgólf Guðmundsson handleika bækurnar.

Meðal bókanna í röðinni var þessi, Rispa jeppa, eftir Hauk Má Helgason sem má kaupa hér fyrir eingöngu 1400 krónur. Gjöf en ekki gjald.

Grúskað í netbókahillum XIX – Íslenzkir sjávarhættir II

Fyrir bókasafnarann er ófullkomin ritröð ekki það versta því það gefur honum bara tækifæri til þess að fara í bókabúðir og leita að því sem vantar. Og hér er einmitt bók sem einhvern gæti mögulega vantað.

Íslenzkir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson kom út á árunum 1980 til 1986 og er í fimm bindum. Mögulega er einhver sem les þessa færslu að leita að 2. bindi í ritröðinni og hér er hún barasta til sölu.

Það er sérstaklega við hæfi að glugga í þessa bók núna þar sem UNESCO ákvað í vikunni að súðbyrðingurinn fái að vera á lista yfir óáþreifanlegan menningararf líkt og má lesa í þessari færslu frá Árnastofnun.

Grúskað í netbókahillum XVIII – Óskar og Helga

Árið 1997 frumsýndi Þorfinnur Guðnason 50 mínútna mynd sína Hagamús – með lífið í lúkunum. Myndin segir frá sambandi músanna Óskars og Helgu og lífi þeirra. Hér er dramatík og spenna, ástir og örlög og hin endalausa leit að vetrarforða. Myndin fær einkunnina 8 á kvikmyndavefnum IMDb sem telst nokkuð gott.

Seinna gerði svo Gunnar Gunnarsson bók út frá myndinni sem sló rækilega í gegn og var lesin í kennslustofum um land allt, að því er best ég veit.

Óskar og Helga er tvíeyki á pari við Sigríði og Indriða, Ragnar og Gógó, Gunnar og Hallgerði og fleiri. Ekki láta þessa renna þér úr greipum. Bókin er til sölu hér.

Grúskað í netbókahillum XVII

Við höldum okkur við kvenskáld sem eru á einhvern hátt tengd Suðurlandi. Í fyrri færslum höfum við talað um Ragnheiði Jónsdóttur sem var frá Stokkseyri og svo Normu E. Sigfúsdóttur sem býr núna í Hveragerði en þangað flutti líka Elísabet Jökulsdóttir nýlega.

Þar sem ég bý nú í Vesturbæ Reykjavíkur sakna ég þess að sjá hana ekki á vappi hverfinu en ég verð þá bara að sækja hana heim á nýja staðinn.

Varðandi Vængjahurðina þá fann ég, enn og aftur, góða umfjöllun eftir Úlfhildi Dagsdóttur þar sem segir meðal annars:

Bókin er fallega hönnuð, breið um sig og bleik (eins og áður hefur verið ýjað að), með mynd af hvítri vængjahurð framaná, aftaná er hvít útlínumynd af höfundi. Hönnunin gefur til kynna léttan og kíminn tón, gleði og leik. Og ljóðin í bókinni einkennast svo einmitt af slíkri tóntegund.

Úlfhildur Dagsdóttir, „Bleik ástarsaga“, Bókmenntaborgin, https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/vaengjahurdin