Grúskað í netbókahillum XVI

Kápan er eftir Sigrúnu Guðjónsdóttur, dóttur Ragnheiðar

Ég hitti nýverið mann sem er af þeirri kynslóð sem var að alast upp þegar Kötlu bækurnar voru að koma út. Þegar ég spurði hvort hann hefði lesið þessar bækur sagði hann grunsamlega fljótt: „Nei. Þær voru fyrir stelpur.“

Ég leyfi mér að efa það að enginn strákur hafi svo mikið sem opnað þessar bækur og örugglega einhverjir sem lásu þær í leyni.

En þessa fallegu bók má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum XV

Það mætti segja að Norma E. Samúelsdóttir sé með afkastameiri rithöfundum frá seinni hluta 20. aldar en hún hefur gefið út 18 bækur á tæplega þrjátíu árum. Næstsíðasti dagur ársins var hennar fyrsta bók og kom út 1979. Frá árinu 2000 hefur Norma verið búsett í Hveragerði og telst því sunnlenskt skáld í dag.

Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum XIV

Október er auðvitað löngu liðinn en það er þá bara að bíða eftir næsta október til að lesa þessa bók. Ég geri ekki ráð fyrir því að stafirnir hverfi úr henni þegar október er liðinn. Bókin kostar litlar 2.990 kr. og sómir sér vel uppí hvaða bókahillu sem er. Svo er kápan líka svo falleg enda eftir Jón Engilberts, myndlistarmann og teiknara.

Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum XIII

Sigurjón Jónsson var útibússtjóri Landsbankans við Klapparstíg í fleiri ár en sendi frá sér fjölda bóka, þar á meðal bókina Yngvildi fagurkinn, sem kom út í tveimur hlutum. Sigurjón ku víst hafa vaknað á hverjum morgni klukkan 5 og skrifað til 6 áður en hann fór í vinnuna. Nafn hans, líkt og svo margra annara rithöfunda frá 20. öld, er flestum gleymt núna.

Hér er til sölu fyrra bindi af bókinni um Yngvildi fögurkinn sem er byggð á Svarfdæla sögu og kostar litlar 1.500 krónur. Káputeikningin er mjög falleg og er eftir Atla Má.

Grúskað í netbókahillum XII

Með heldur rautt nef þessi sveinki…

Það styttist í jólin og nú þarf fólk að fara að huga að jólagjöfum. Þetta tímarit frá 1948 er fyrir börnin sem eiga allt. Eða jólabörnin (sem eru á öllum aldri) sem vantar eitthvað fallegt skraut upp í hillur. Þessi jólasveinn er samt með nokkuð rautt nef. Spurning hvort hann sé með einhvern drykk í pokanum til að halda sér heitum.

Bókina má kaupa hér.

Opið á Selfossi alla daga fram að jólum

Jólakaffið fæst á Selfossi

Það er mikil stemning hjá okkur í Bókakaffinu þessa dagana og jólabækurnar flæða um öll borð og hillur. Í verslun okkar Selfossi verður nú opið alla daga fram að jólum, jólabókaupplestur er á fimmtudagskvöldum og svo minnum við á jólaviðburð fyrir börnin þar sem Snuðra og Tuðra mæta og spila jólalög á píanóið og syngja með ásamt fleiri góðum gestum. Sá viðburður verður sunnudaginn 12. desember kl.14 Hlökkum til að sjá ykkur, Starfsfólk Bókakaffisins

Snuðra og Tuðra, Þórarinn Eldjárn og aðrar kanónur

Harpa Rún, Þórarinn, Ingólfur, Bergsveinn og Berlind María.
Dóróthea Ármann í Friðheimum hefur skráð gullfallegar jólaminningar ömmu sinnar og nöfnu og sett í bók. Jólatexti sem kemur jafnvel versta jólaskröggi í jólaskap.
Í Bókakaffinu, leikkonan Hera Fjölnisdóttir í hlutverki Snuðru litlu og Anna Björk Eyvindsdóttir afgreiðslukona. 

Það er stór vika framundan í Bókakaffinu. Austurvegi 22 á Selfossi þar sem stórkanónur úr bókmenntaheiminum mæta á fimmtudagskynningu og á sunnudag verða svo Snuðra og Tuðra á staðnum og skemmta ásamt Dórótheu Ármann barnabókarhöfundi. Í Bókakaffinu er gætt vel að sóttvörnum og aldrei mjög margir inni á staðnum í senn.

Snuðra og Tuðra mæta í Bókakaffið klukkan 14 sunnudaginn 12. des. og verða þar í jólaskapi, spila á píanóið og syngja jólalög. Þá mætir Dóróthea Ármann í Friðheimum sem sent hefur frá sér bókina Jólahátíð í Björk.

Fimmtudagskvöldið 9. des. mætir stórsveit rithöfunda og les upp en þeir sem vilja mæta eru vegna sóttvarna beðnir um að skrá sig til þátttöku á netfanginu bokakaffid@bokakaffid.is eða um síma 482 3079. Aðeins 25 gestasæti eru í húsinu og því ekki hætta á þrengslum en þeir sem eru seinir með skráningu gætu misst af því að fá.

Höfundarnir sem mæta að þessu sinni eru reynsluboltarnir Þórarinn Eldjárn og Bergsveinn Birgisson, ungskáldin Harpa Rún Kristjánsdóttir og Ingólfur Eiríksson og svo síðast en ekki síst  þær stöllur dr. Berglind María Tómasdóttir og hennar hliðarsjálf Rockriver Mary. Upplestur og uppákomur margskonar. Kakó, smákökur og jólastemning.

Höfundarnir kynna eftirtalin verk:

Tvísöngur á bók, geisladisk og segulbandsspólu – Berglind María Tómasdóttir.

Ingólfur Eiríksson – Stóra bókin um sjálfsvorkunn.

Harpa Rún Kristjánsdóttir – Kynslóð.

Bergsveinn Birgisson  – Kolbeinsey.

Þórarinn Eldjárn – Umfjöllun.

Grúskað í netbókahillum XI

Tarzan apabróðir

Tarzan apabróður er líklegast með þekktustu sögupersónum 20. aldarinnar. Skapari Tarzans, Edgar Rice Burroughs, skrifaði 24 bækur um hinn vöðvastælta frumskógarmann. Höfundurinn fór nú víst aldrei sjálfur til Afríku og var eindreginn talsmaður kynbóta og það er margt í bókunum sem fáir myndu skrifa upp á í dag. Í þessari bók um Tarzan, Tarzan hinn sigursæli, ráðast sovéskir agentar á Tarzan og hans fólk og sjálfur Jósef Stalín leikur lítið hlutverk.

Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum X

Með sjötíu myndum!

Nú styttist í jólafrí og þá tekur við biðin endalausa fyrir börnin (og marga fullorðna) eftir að mega opna pakkana. Þá er um að gera að finna sér eitthvað til dundurs. Við í bókabransanum vitum það öll fyrir vissu að óhóflegt sjónvarpsgláp er bara óhollt en stundum verðum við að standa upp frá bókalestrinum til að hreyfa sig. Hví þá ekki að fara í leiki eða leysa þrautir? Í þessari bók frá 1944 er hægt að finna sér sitthvað til dundurs. Hún er líka skemmtileg aflestrar en eins og stendur á kápunni eru 70 myndir með textanum. Það toppar nú allt sjónvarpsefni…

Bókina má kaupa hér.

Grúskað í netbókahillum IX

Talk to the hand, ’cause the face ain’t listening!

William John Warner, eða Cheiro, eins og hann var betur þekktur var einn helsti miðill, lófasérfræðingur og talnaspekingur Englands á 19. og 20. öld. Hann átti góðu gengi að fagna bæði í sínu heimalandi og í Bandaríkjunum og rak meira að segja enskt dagblað í París. Hann bjó í Hollywood síðustu árin þar sem hann hitti hátt í 20 manns á dag sem vildu láta lesa í lófa sinn. Samkvæmt honum sjálfum þá lærði hann hjá indverskum gúrú, Chitpavan Brahmin.

Það er leitt að við eigum þess ekki kost á að fá lófalestur frá Cheiro sjálfum en fyrir þau sem vilja vita hvað leynist í lófanum þá er þetta rétta bókin fyrir það fólk.