Þríleikur Bjarna um Skálholt í einni kilju 

Sagnabálkurinn Síðustu dagar Skálholts eftir Bjarna Harðarson spannar aldarlanga sögu Skálholtssveita. Sagan er hér sögð frá sjónarhóli fátækra landseta stólsins og lýsir kjörum þeirra og lífi. Við sögu kemur fjölskrúðugt persónusafn, allt frá biskupum og fyrirmennum til kotafólks og soðbúrskerlinga. Einna fyrirferðarmest verður þó skringimennið síra Þórður í Reykjadal sem á sér þann draum að sjá Skálholtsstað brenna einu sinni enn en hefur ekki uppburði til að kveikja þá elda. Móðuharðindi, jarðskjálftar og almenn ringulreið 18. aldar taka að lokum að sér að greiða staðnum náðarhöggið og í Sultartungum verður ekki annað eftir en þau strá sem eru aldrei nema strá. Frumgerð sögunnar kom út í þremur bókum, Í skugga drottins, Í Gullhreppum og Síðustu dagar Skálholts, á árabilinu 2017–2020.

Með grjót í vösunum eftir Svein Torfa Þórólfsson

Sveinn Torfi Þórólfsson (1945–2016) ólst upp á Skagaströnd til tíu ára aldurs en fluttist þá til Grindavíkur með fjölskyldu sinni. Lífsbaráttan var hörð og oft var mikið lagt á hans ungu herðar. Hann vann í fiski, fór í sveit og stundaði sjómennsku frá barnsaldri. Sveinn braust af eigin rammleik til mennta. Hann var fyrst á Laugarvatni en síðan í háskólum á Íslandi og í Noregi þar sem hann settist að og starfaði sem verkfræðingur og prófessor. Hér segir Sveinn Torfi frá æskuárunum á Skagaströnd þar sem hugmyndaflugið fékk að njóta sín í fjölbreyttum leikjum og síðan ljúfri dvöl í sveit á Höskuldsstöðum — en einnig harðneskjulegum unglingsárum. Með grjót í vösunum geymir minningar um horfinn tíma og svipmyndir af eftirminnilegu fólki. Þetta er mikilsverð og bráðskemmtileg heimild um íslenskan veruleika um miðja síðustu öld. Útgefandi er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.

Hylurinn – ný bók

Hylurinn er dramatísk og spennandi saga af heillandi mannlífi, andlegum þroska, ástum og fallegri vináttu.Sögumaðurinn Snorri, hinn guðumlíki Stefán og sjálfmenntaði nuddarinn Kolfinna í Borgarnesi eru þríeyki sem í sameiningu vinna kraftaverk. Við kynnumst líka systkinunum Kára og Sólrúnu sem rænd voru æsku sinni og hafa sloppið naumlega undan illum og ósanngjörnum örlögum. Hylurinn er fyrsta bók Gróu Finnsdóttur sem hefur yfir að ráða næmum og fallegum stíl.Bókin er gefin út af Bókaútgáfunni Sæmundur 2021.

Þvílíkar ófreskjur – ný bók

Þvílíkar ófreskjur, – með þeim orðum um rímnakveðskap setti Jónas Hallgrímsson tóninn fyrir íslenska ritdómara. Titill bókarinnar vísar til hins tvíbenta hlutverks ritdómarans: að vera í senn skrímsli og bjargvættur á bókmenntasviðinu. Sérstakur gaumur er gefinn að þætti kvenna í þeirri sögu og í lokin er velt upp spurningum um framtíð ritdóma í nýju, tölvuvæddu umhverfi.¨ Auður Aðalsteinsdóttir heldur útgáfuhóf í dag kl 17, Mál og menningu Laugavegi 18. Allir velkomnir.

GADDAVÍRSÁTIÐ og aðrar sögur

Gaddavírsátið er heiti bókar Jochum Magnúsar Eggertssonar sem tók sér listamannsnafnið Skuggi og var áberandi í bæjar- og menningarlífi Reykjavíkur um miðja síðustu öld. Hann var þekktur fyrir þrasgirni, skáldskap, fræðastörf og frumlegar kenningar um landnám Íslands. Frægastur er Skuggi fyrir Galdraskræðu sína sem enn er í hávegum, hér á landi og erlendis, en alls gaf hann út á þriðja tug rita og ritlinga um ýmis málefni. Þekktasta smásaga Skugga er Gaddavírsátið, sem segir af lausamanni í Nýja-Jórvíkurhreppi sem leggur sér gaddavírsrúllu til munns.Í bókinni eru að auki sögurnar þrjár af Guðmundi Kristmannssyni, verðlaunasaga Skugga af trýnaveðri fyrir vestan, sagan af stórveldum Stefáns Bjarnasonar, sönn saga úr Skjóðufirði og Reykjavíkursaga af yfirnáttúrulegum marhnúti. Árni Matthíasson tekur æviferil Jochums í inngangi bókarinnar.

Sögur úr síðunni

Þrettán myndir úr gleymsku

Sögur úr síðunni er heiti bókar Böðvars Guðmundssonar en í henni eru þrettán tengdar sögur sem allar gerast í einni og sömu sveitinni á áratugunum um og eftir seinni heimsstyrjöld. Við kynnumst fjölda eftirminnilegra persóna, bændum og búaliði, brúarvinnukörlum og gestkomandi fólki, sem lýst er af leiftrandi kímni og svo miklu næmi að lesanda finnst hann nauðaþekkja þetta fólk. Sögur úr síðunni opna lesendum glugga inn í horfinn heim sem er býsna framandi þótt hann sé ekki ýkja fjarlægur í tíma, heim íslensks sveitalífs um það bil sem „allt landið er að búa sig undir að flytja til Reykjavíkur án þess að gera sér grein fyrir því“. Böðvar Guðmundsson þarf vart að kynna fyrir íslenskum bókmenntaunnendum. Eftir hann liggur fjöldi ritverka, smásögur, ljóð, leikrit og skáldsögur sem notið hafa hylli landsmanna. Sögur úr síðunni komu fyrst út árið 2007 og hlutu frábærar viðtökur.

Síðasta barnið

Síðasta barnið er heiti bókar Guðmundar Brynjólfssonar og sjálfstætt framhald bókanna Eitraða barnið og Þögla barnið sem báðar fengu frábærar viðtökur lesenda og gagnrýnenda. Veturinn er harður og ofan á basl alþýðunnar bætist morðbrenna á Stokkseyri og skotárás á sýsluskrifstofunni á Eyrarbakka. Sem fyrr fléttast hlutskipti fátækra Sunnlendinga inn í líf sýslumannshjónanna sem þó eiga nóg með sitt. . Studdur af skrifara sínum Tryggva þarf Eyjólfur að glíma við höfuðandstæðing sinn, óþokkann Kár Ketilsson sem bruggar sín viðbjóðslegu ráð. Embætti sýslumanns berst óvæntur liðsauki frá Englandi og ekki seinna vænna því nú dregur að leikslokum. Síðasta barnið er áttunda skáldsaga Guðmundar S. Brynjólfssonar sem auk þess er verðlaunað leikskáld og þekktur pistlaskrifari.